Friday 11 December 2009

Málefli, markmið í nóvember og desember

Ég hef gleymt að fara yfir hvernig gekk að vinna að markmiðum nóvembermánaðar. Ég fór yfir þessi atriði á facebook síðunni minni í byrjun nóvember.
Við hittum formann og framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands á mjög fróðlegum og upplýsandi fundi.
Við héldum kynningarfund um markmið og starf Máleflis fyrir Félag talkennara og talmeinafræðinga. Þar vorum við með 3 stuttar kynningar, tvær þar sem foreldrar sögðu frá reynslu sinni af að eiga barn með tal- og málhömlun og eina þar sem farið var yfir markmið félagsins. Við enduðum svo fundinn á að skipta þátttakendum í umræðuhópa til að ræða áhersluatriði í starfi félagsins.
Við undirbjuggum vinnufund á Sólheimum í Grímsnesi um áhersluatriði í starfi félagsins og buðum til hans öllum sem voru á stofnfundinum, foreldrum sem hafa lýst sig áhugasama um félagið og meðlimum á facebook síðu félagsins. Enginn boðaði sig á fundinn, þannig að við hættum við að halda hann.
Ekki er annað að gera að endurmeta stöðuna og nota aðrar aðferðir til að ná til foreldra og fagfólks. Ein hugmynd er að fara með umræðupunktana okkar inn á leikskóla og skóla og biðja starfsfólk þar að taka þátt í umræðunni. Við sjáum fyrir okkur u.þ.b. 60 - 90 mínútna fund þar sem félagið væri kynnt og þátttakendum síðan skipt í hópa og þeir beðnir að ræða ákveðin áhersluatriði sem við í stjórninni erum búin að skilgreina. Kannski þarf ekki kynningarfundinn, kannski verður bara nóg að biðja fólk að deila með okkur því sem þeim finnst mikilvægast að vinna að í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskafrávik. Allir áhugasamir vinnustaðir eru beðnir um að hafa samband við okkur (malefli@gmail.com).
Þá er bara eftir að finna út hvernig við fáum beint samband við foreldra.
Ein hugmynd er að boða til umræðu á netinu. Bjóða fólki að taka þátt í umræðunni og taka fyrir eitt umræðuefni í einu.

Við erum ekki búin að velja logó ennþá, en það verkefni er í vinnslu, með dyggum stuðningi frá O auglýsingastofunni.
Við héldum 2 eða 3 stjórnarfundi í nóvember, en erum einnig í stöðugu sambandi í gegnum tölvupóstinn.
Við höfum ákveðið að halda aðalfund Máleflis í byrjun eða um miðjan mars og undirbúum jafnframt heimasíðu félagsins.
Við tökum okkur frí í desember, en erum komin með heimavinnu, en það er að lesa skýrslu Berkco þingmanns frá UK um málefni barna og unglinga með tal- og málþroskafrávik.
Næsti stjórnarfundur verður 9. janúar 2010.

No comments: