Sunday 10 August 2008

300 sex ára börn með SM að hefja skólagöngu

Í haust byrja um 4000 sex ára börn í grunnskólum landsins. þá munu 300 börn byrja skólann með erfiðleika við að nota mál og tal, ef hægt er að nota erlendar viðmiðunartölur. Sum barnanna eiga erfitt með að skilja mælt mál, önnur eiga erfitt með að tjá sig og sum þeirra eiga bæði erfitt með að skilja mælt má og að tjá sig. Til eru börn sem þroskast að mestu leiti á dæmigerðan hátt nema á sviði máls og tals. Þau eru með eðlilega heyrn. Hreyfingar eru eins og jafnaldra. Taugaþroski er eðlilegur. Verkleg greind er innan marka dæmigerðra barna en ekki munnleg greind. Þetta hefur verið kallað sértæk málþroskaröskun á íslensku (Specific Language Imparment). Nánari greining á vanda þessara barna hefur sýnt að í samanburði við jafnaldra eiga þessir krakkar erfitt með að læra merkingu orða, þau tjá sig en í samanburði við jafnaldra eru setningar styttri og einfaldari. Þau sleppa oft málfræðiendingum og smáorðum þegar mynda setningar. Þau misheyra oft það sem sagt er við þau. Framburður er stundum óskýr. Þau eru ekki eins dugleg og jafnaldrar að biðja um útskýringar ef þau skilja ekki það sem fram fer og þau leiðrétta ekki viðmælanda sinn ef þau eru misskilin. Í samanburði við jafnaldra hafa þau sjaldnar frumkvæði að samskiptum við önnur börn og þeim gengur verr að leysa úr ágreiningi ef upp koma deilur í barnahópnum. Ofangreint er aðeins stutt upptalning á einkennum sem geta komið fram í málþroska barna með sértæka málþroskaröskun. Þessi einkenni valda því að börnin fá ekki þá mikilvægu æfingu í að nota mál og tal sem nauðsynleg er til að ná tökum góðum tökum á málfari.
Þegar þessir einstaklingar hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að 6 ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa m.a. vegna frávika í málþroska og erfiðleika við undirstöðuatriði lesturs. Þar með er hafinn ferill neikvæðara upplifana í skólanum. Þeim gengur illa að læra að lesa sér til gagns og ánægu og eiga þá jafnframt erfitt með að tileinka sér námsefnið. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að það er einmitt þessi hópur sem stendur sig verst á samræmdum prófum í íslensku, í fjórða bekk.
Nýjar rannsóknir birtast um orsakir og einkenni sértækrar málþroskaröskunar. Þær hafa sýnt fram á að strax við þriggja ára aldur eru enskumælandi börn með málþroska á við eins árs börn í málþroska. Það er því ekki ástæða til að bíða og sjá til þegar grunur vaknar um frávik í málþroska á forskólaaldri. Jafnvel 6 ára byrjandi í skóla hefur margra ára reynslu af erfiðleikum við að skilja mælt mál og tjá sig.
Horfur fullorðinna einstaklinga með alvarleg einkenni seinkunnar á málþroska eru heldur daprar. Bresk rannsókn á 17 karlmönnum sem greindir voru með sértæka málþroskaröskum við 6 ára aldur sýndi m.a. að enginn þeirra tók samræmt próf 16 ára og að enginn þeirra var fær um sjálfstæða búsetu þegar þeir voru 36 ára. Þeir bjuggu allir á vegum félagsþjónustunnar eða fjölskyldna sinna.
Þessi pistill er skrifaður til að benda á að þessi hópur barna á ekki málsvara á Íslandi. Það er ekki til stuðningshópur foreldra þessara barna og engin stofnun á Íslandi sinnir greiningu á vandamálum þeirra og veitir þjálfun eða ráðleggingar til foreldra og starfsfólks skóla, nema ef vera skyldi sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar.
300 börn samsvara því að það sé eitt og hálft barn í hverjum sex ára bekk með sértæka málþroskaröskun.
Að bíða og sjá til er úrræði sem er óásættanlegt og að forðast að skilgreina vandan hjálpar þeim ekki. Börn með sértæka málþroskaröskun þurfa sérhæfð úrræði til að hjálpa þeim að ná tökum á tilverunni.