Wednesday 20 February 2008

Hvað er sértæk málþroskaröskun?

Sértæk málþroskaröskun er líka kallað máþroskafrávik og seinkun á málþroska. Sértæk málþroskaröskun vísar til barna sem hafa merkjanleg erfiðleika við að læra talað mál. Þau læra ekki málið sem fyrir þeim er haft eins og önnur börn. Hugtakið sértæk málþroskaröskun vísar ekki til einstaklinga sem eiga erfitt með að læra tungumálið vegna vitsmunalegra eða líkamlegrar fötlunar s.s. heyrnardeyfu, tilfinningalegra vandamála eða vöntunar á örvun í umhverfi. Börn með sértæka málþroskaröskun eiga fyrst og fremst erfitt með að læra móðurmálið.

Börn sem sögð eru hafa sértæka málþroskaröskun eru ekki öll eins. Nei, röskun þeirra getur verið margvísleg: Nokkrum algengum einkennum er lýst hér fyrir neðan:

  • barnið virðist skilja það sem það heyrir, en fólk skilur ekki það sem barnið er að reyna að segja

  • barnið talar skýrt og í löngum setningum, en gengur oft illa að finna aðalatriði þess sem það vildi tjá sig um og segir því oft eitthvað óviðeigandi eða gerir óviðeigandi athugasemdir

  • barnið talar skýrt en notar eitt og eitt orð því það á erfitt með að tengja orðin saman til að búa til setningar. Sleppir oft orðum í setningum

  • barnið skilur eiginlega ekkert talað mál og tjáir sig aðeins með fáum orðum.


Það er venjan að aðgreina milli málskilnings (að skilja talað mál) og máltjáningar (að nota talað mál). Flest börn með sértæka máþroskaröskun hafa betri málskilning eða máltjáningu. Sum eiga erfitt með hvoru tveggja.


Til þess að geta skilið og tjáð sig þarf barnið að hafa vald á:


  • talfærunum: eða munninum, tungunni, nefinu, öndun, o.fl. Barnið lærir smá saman að stýra og samhæfa hreyfingar talfæranna til að nota þau til að tjá sig. Börn með sértæk málþroskafrávik og erfiðleika við að stjórna talfærunum finnast oft fljótt.

  • hljóðfræði - barnið þarf að þekkja og getað myndað hljóðin í tungumálinu.

  • setningafræði (málfræði og beygingarfræði) - hvernig orð og hlutar orða eru sett saman í setningahluta og setningar.

  • merkingarfræði - merkingu orða, merkingu orðhluta og merkingu setningahluta og merkingu setninga.

  • málnotkun - hvernig málið er notað í ýmsum aðstæðum s.s í upphafi, miðju og lok samtals, eða hvernig það er notað til að tjá tilfinningar.

  • hljómfalli og áherslum orða og setninga - það er takturinn eða tónlistin í því sem við segjum.


Barn getur átt erfitt með að læra og nota hljóðfræði, setningafræði, merkingafræði og málnotkun. Það hefur áhrif á málskilning eða máltjáningu eða hvort tveggja. Barnið getur einnig átt erfitt með að ná valdi á öðrum þroskaþáttum sem eru ekki eins augljósir.


Nauðsynlegt er að sá sem gerir greiningu á sértækri málþroskaröskun hafi víðtæka þekkingu á öllum sviðum málþroska og einnig málþroskafrávikum. Það er líklegt að frávik á einu sviði hafi áhrif á önnur svið líka. Hvert barn þarfnast nákvæmrar greiningar og einstaklingsmiðaðrar hjálparáætlunar eða námsáætlunar.


Snarað og aðlagað íslenskum aðstæðum af AFASIC vefnum.

No comments: